Björg Hákonardóttir

Björg

Hákonardóttir

Þjálfari

Björg Hákonardóttir

Öll mín fullorðinsár hef ég haft gríðarlegan áhuga á heilsu, bæði líkamlegri og andlegri. Ég var svo óheppin sem unglingur að lenda endurtekið í bílslysum sem ullu langvarandi stoðkerfisverkjum. Út af því fór ég að stunda Bikram Yoga og fékk ég mikinn áhuga á allri sjálfsrækt. Hef farið á fjölda námskeiða í hugleiðslu, núvitund og öðru því tengdu ásamt því að hafa lesið mér mikið til um heilsu og ræktun líkamans. Eftir að hafa stundað jóga sjálf frá 2010 ákvað ég að fara út til Indlands í september 2019 og dvaldi ég í mánuð í Rishikesh sem er jógahöfuðborg heimsins. Kláraði ég þar 200 klst jógakennaranám hjá ashraminu Gyan Yog Breath. Á febrúar 2021 kláraði ég 50 klst. nám hjá Karess Gallagher sem hún kallar The Mystery School. Í náminu er farið enn þá dýpra í jógafræðin, hugleiðslutækni og líffræðina á bakvið asanas (jógastöður). Eftir það langaði mig mikið að taka framhaldið í jógakennaranum og í apríl 2021 tók ég 300 klst. framhaldsnám frá Om Yoga International í Rishikesh (námið fór fram á zoom sökum heimsfaraldurs). Allir þeir kúrsar sem ég hef lokið eru vottaðir af Yoga Aliance og hef ég lokið um 550 klst. af námi tengdu jóga og hugleiðslu.

Jóga hefur þó ekki átt hug minn allan en ég hef reglulega tekið mér pásur frá þeirri iðkun og snúið mér að öðru. Ég hef stundað lyftingar af og á í 10 ár og hef sankað að mér þekkingu á æfingum og mataræði. Jógafræðin hafa þó hjálpað þessari iðkun minni mikið, að kunna líffræðina og hvernig skal bera líkaman rétt hefur munað öllu.

Eftir að ég kom heim frá Indlandi hef ég leitt hugleiðslu og jógatíma fyrir litla hópa og einstaklinga. Ég fékk svo mitt fyrsta tækifæri til að kenna stærri hópum snemma árs 2021 þegar Linda í Hress gaf mér tækifæri. Síðan í haust hef ég kennt Warm Fit með fram því að leysa af í öðrum tímum.

Ég er með B.Sc. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og er ég núna í masternámi í heilbrigðisvísindum með áherslu á sálræn áföll og ofbeldi, við Háskólann á Akureyri. Ég hef starfað sem atferlisþjálfi fyrir einhverf börn á leikskólaaldri, sem stuðningsfulltrúi á geðdeild LSH og stuðningsfulltrúi á sambýli. Ég hef setið námskeið í sálrænni skyndihjálp og einnig sat ég námskeið í samtalstækni fyrir sjálfboðastörf mín hjá Rauða Kross Íslands. Einnig er ég með framhaldspróf í píanóleik en það er kannski óþarfa upplýsingar fyrir líkamsræktarkennara 😉