Hressleikarnir 2025
STYRKTARMÁLEFNI HRESSLEIKANNA 2025
Alexandra Kvaran er 16 ára framhaldsskólanemi, jákvæð stúlka sem elskar að hreyfa sig, vinnur í Krónunni og hlakkar til að fá bílprófið. Hún vill mæta í framhaldsskóla, hitta vini og horfa björtum augum til framtíðar.
Hún hefur tekist á við meiri áskoranir en flestir jafnaldrar hennar. Alexandra greindist með arfgenga heilablæðingu, séríslenskan sjúkdóm sem stafar af stökkbreytingu í cystatin C-geninu á 20. litningi. Sjúkdómurinn veldur uppsöfnun prótíns í smáslagæðum heilans og getur leitt til endurtekinna heilablæðinga.
Móðir hennar María, lést af völdum sama sjúkdóms árið 2017, þegar Alexandra var 8 ára. Hún var ötul baráttukona sem vann af krafti að því að afla fjár til rannsókna á sjúkdómnum.
Sumarið 2024 fékk Alexandra sína fyrstu heilablæðingu, aðeins 15 ára gömul, og lamaðist að hluta á vinstri hlið. Það var henni stórt áfall, bæði atvikið í sjálfu sér sem var hræðileg lífsreynsla, en áfallið fólst líka í því að þarna kom staðfesting á að hún væri með sjúkdóminn.
Við tók hörku vinna hjá Alexöndru við að koma líkamanum aftur í gang. Hún lét ekkert stoppa sig og með endurhæfingu og ómetanlegum stuðningi fagfólks, fjölskyldu, kærasta og vina stóð hún aftur upp, staðföst í því að láta veikindin ekki skilgreina sig. Tveim vikum eftir að hún útskrifaðist af barnaspítalanum mætti hún í Flensborg og vildi hefja framhaldsskólanám eins og aðrir jafnaldrar.
Alexandra segir sjúkdóminn hafa mest áhrif á andlegu hliðina og hún talar heiðarlega um óttann um framtíðina sem fylgir, en líka vonina, seigluna og kraftinn sem kviknar þegar fólkið manns stendur þétt við bakið á manni.
Alexandra hefur gott fólk í kringum sig eins og föðursystur sína og fjölskyldu sem hún býr hjá. Hún á frábæran kærasta sem hjálpar henni að takast á við erfiðleikana sem fylgja þessu. Alexandra er mjög meðvituð um heilsuna og hefur mikinn áhuga á að passa sem best uppá líkama og sál með heilsurækt og sjálfsuppbyggingu. Annars reynir hún að vera jákvæð og lifa lífinu eins og annað ung fólk.
Hressleikarnir eru skemmtilegt æfingapartý og góðgerðaleikar sem haldnir eru 1. nóvember. n.k.
Söfnunarreikningur Hressleikanna er:
Rkn: 135-05-71304.
Kt. 540497-2149
Happdrættismiðar Hressleikanna fást í netverslun Hress: https://www.hress.is/product/hressleikar-2025/
Öllum er velkomið að taka þátt og stendur skráning yfir í netverslun HRESS: https://www.hress.is/voruflokkur/hressleikar/
Taka þátt í Hressleikunum: https://www.hress.is/voruflokkur/hressleikar/






