Fréttir
08
12
2019

HRESSLEIKARNIR 2019

Eftir: 0

Við þökkum kærlega öllum sem studdu okkur og tóku þátt í Hressleikunum í ár.
Söfnunin endaði í 1. 753.500.- sem við erum einstaklega þakklát fyrir.

Hér má lesa þakkarpóst frá Elínu Ýr Arnarsdóttur sem við styrktum í ár.

Þegar Linda hringdi í mig og tilkynnti mér að ég hefði verið tilnefnd sem sá einstaklingur sem að Hress vildu styðja í Hressleikunum, þá var ég í fyrstu, í örstutta stund að fara að hlæja. Eftir símtalið tók ég mér smá umhugsunartíma og allar þær hugsanir sem Linda sagði mér að ég myndi eflaust hugsa, reyndust réttar. Ég hugsaði með mér að það væri án efa einhver þarna úti sem átti þetta mun meira skilið. Ég hugsaði með mér að ég væri ekki manneskja sem væri að takast á við erfið og jafnvel banvæn veikindi. Ekki síst var það áskorun að stíga svona fram, fyrir allra augum og hleypa fólki inn í líf mitt og verkefni með þessum hætti. Ég þurfti að peppa mig áfram og ég þurfti að minna sjálfa mig á að ég hefði ákveðið þegar ég fékk greininguna mína að framvegis myndi ég grípa tækifærin þegar mér myndi bjóðast að stækka þægindahring minn. Ég er þakklát fyrir að hafa lofað sjálfri mér þessu og staðið við það. Ég hef á þeim tíma, síðan ég tók þessa ákvörðun tekið að mér verkefni og tekið áskorunum sem ég hefði hlaupist hratt undan áður.
Það hefur ekki verið auðvelt að takast á við sjálfa mig, efasemdir,sjálfsvorkunnartímabilin og læra að aðlagast hreinlega nýjum lífsstíl eftir að hafa greinst með þennan hrörnunarsjúkdóm. Usher-heilkenni og ferðalag heilkennisins er ekki beint fyrirsjáanlegt. En það hefur sannarlega auðveldað það að upplifa slíka samstöðu sem Hressleikar eru. Að finna fyrir þessari jákvæðu og kraftmiklu orku sem ég fann á sjálfum Hressleikunum. Hressleikarnir standa sannarlega undir nafni og ég ævinlega þakklát fyrir að hafa verið boðið í þetta magnaða ferli, upplifa þessa geggjuðu stemmningu og samstöðu. Ég hef heitið sjálfri mér því að vera þátttakandi í Hressleikunum á næsta ári og vita hversu dýrmætt það er hverjum þeim sem Hressleikarnir styðja. Þúsund þakkir dásamlega Hress-fjölskylda og öll þau sem tóku þátt með beinum eða óbeinum hætti.
Sjáumst á næstu Hressleikum