Fréttir
02
11
2019

Söfnunarreikningur Hressleikanna

Eftir: Lovísa Björt 0
Söfnunarreikningur Hressleikanna
0135-05-71304 á kennitölu 540497-2149
Sala á Happdrættislínum er einnig hafin í móttöku Hress. Við tökum á móti símgreiðslum.

Það er hún Elín Ýr Arnar Hafdísardóttir sem við styrkjum í ár.

Elín hefur fengið nokkur mjög krefjandi verkefni á lífsleiðinni og við segjum hér í stuttu máli hennar sögu:
Árið 2016 leitaði Elín Ýr til augnlæknis þar sem hún hafði orðið vör við sjóntruflanir. Nú tæpum þremur árum síðar er hún orðin lögblind, hætt að keyra og komin með leiðsöguhund.
Elín Ýr er fædd heyrnarskert en greindist þó ekki fyrr en fjögurra ára gömul og fékk þá heyrnartæki. Elín átti erfiða skólagöngu sökum heyrnarskerðingarinnar en er í dag menntaður þroskaþjálfi með BA í félagsráðgjöf og diplóma í fötlunarfræðum og er einstæð móðir tveggja drengja sem eru fæddir 2016 og 2010.
Árið 2016 leitaði Elín til augnlæknis þar sem hún varð vör við sjóntruflanir, mikila ljósfælni og skugga í sjónsviðinu. Hún fer til augnlæknis á LSH og fer í gegnum greiningarferli þar sem hún var greind með RP eða retinitis pigmentosa sem er hrörnunarsjúkdómur í augum þar sem með tímanum getur fólk orðið alblint eða haldið í einhverja rörsjón. Í framhaldinu fór hún í frekari rannsóknir til að athuga tengsl á milli heyrnar- og sjónskerðingar og greindist í framhaldi með Usher-heilkenni, sem er ættgengur hrörnunarsjúkdómar sem hefur áhrif á sjón og heyrn. Flest með þennan hrörnunarsjúkdóm eru orðin lögblind um fertugt og jafnvel búin að fá kuðungsígræðslu líka. Á þessum tímapunkti var Elín rétt að verða fertug, en hún er fædd 1976. Augnlæknir Elínar taldi að hún ætti töluvert í land að ná „meðaltalinu“ og að hrörnunin yrði eflaust hæg. En því miður var það ekki raunin, því í dag er hún orðin lögblind, hætt að keyra og komin með sterkari heyrnartæki og leiðsöguhund.
Elín segir að greiningin hafi verið mikið áfall og hún upplifði mikla reiði yfir örlögum sínum, en síðan fór hún í gegnum mikla sjálfsskoðun og sjálfsvinnu og í dag reynir hún að taka einn dag í einu.
Við í Hress ætlum að styðja við Elínu og drengina tvo á Hressleikunum í ár eftir öll áföllin sem dunið hafa yfir þessa litlu fjölskyldu.