Fréttir
31
10
2023

STYRKTARMÁLEFNI HRESSLEIKANNA

STYRKTARMÁLEFNI HRESSLEIKANNA 2023 ❤️

Hápunktur í starfsemi HRESS eru Hressleikarnir en þeir verða haldnir í 14 sinn í ár þann 4. nóvember. Markmiðið með þeim er að styrkja fjölskyldu sem gengur í gegnum tímabundna erfiðleika.

Við fengum í ár mjög góðar ábendingar um hvern ætti að styrkja og teljum við okkur hafa valið góðan stað fyrir styrk og hlýjar kveðjur frá okkar fólki.
Í ár styrkjum við þriggja ára ofurstelpu en það er hún Glódís Lea.

Glódís Lea greindist með illvígt og dreift 4. stigs krabbamein tveimur vikum eftir 3 ára afmælið sitt þann 20. júní 2023. Þetta var mikið áfall fyrir alla í kringum þessa kátu stelpu sem hafði ekki sýnt nein einkenni veikinda fyrr en 6. júlí síðastliðinn, en þá fór að blæða inn á meinvarp í lifrinni hjá henni. Fljótlega kom í ljós að hún væri með Neuroblastoma krabbamein og stór æxli á fjórum öðrum stöðum, ásamt mörgum litlum meinvörpum á víð og dreif um þennan litla kropp.
Glódís Lea hefur þurft að gangast í gegnum harða lyfjameðferð, innlögn á gjörgæslu og miklar rannsóknir svo eitthvað sé nefnt. En frá því að Glódís greindist hefur hún staðið sig hetjulega í gegnum fyrsta hluta meðferðarinnar.

Nú er komið að næsta skrefi ferlisins og fór hún með foreldrum sínum til Svíþjóðar þann 16. október. Þar fer hún í stóra skurðaðgerð til að fjarlægja æxlin. Við tekur löng og þung meðferð þar sem ekki er hægt að meðhöndla krabbamein að þessari gerð á Íslandi. Þetta hefur reynst erfitt og mun reynast enn erfiðara í framhaldinu. Foreldrarnir verða báðir að fara með og skilja eldri systur Glódísar Leu eftir heima hjá fjölskyldu og vinum, en þær eru 6 ára og 10 ára. Foreldrarnir þau Harpa Bjork Hilmarsdottir og Ingólfur Steinar Pálsson geta ekki sótt vinnu á meðan á meðferðinni stendur en þau standa saman sem traust bakland fyrir dóttur sína.

Hressleikarnir eru gleðihátíð þar sem margt fólk kemur saman til að gefa af sér og veita stuðning til þeirra sem þurfa á að halda. Stöndum saman, svitnum til góðs og dreifum kærleikanum!

Allt starfsfólk HRESS gefur vinnuna sína þennan dag. Hátt í þrjú hundruð manns skrá sig til leiks og rennur allt skráningargjaldið óskipt í söfnunina. Happdrætti Hressleikana verður á sínum stað en auk þess eru mörg fyrirtæki sem leggja sitt af mörkum. Fyrir það erum við afar þakklát.

Öll framlög eru vel þegin, einnig er hægt að styðja málefnið með gjöfum í Happdrætti Hressleikana
Styrktarsjóður Hressleikana:
Kennitala: 540497- 2149
Reikningur: 0135-05-71304