
Frétt af mbl af Hressleikunum
Mikið fjör var í líkamsræktarstöðinni Hress í Hafnarfirði í gær þegar Hressleikarnir fóru fram í ellefta sinn. Hátt í 300 manns komu saman í stöðinni, sem þeir sem þekkja til vita að er ekki sú stærsta, og söfnuðu hátt í tveimur milljónum króna fyrir gott málefni.
Í ár var ákveðið að styrkja Fanneyju Eiríksdóttur og fjölskyldu hennar, en Fanney greindist með leghálskrabbamein á 21. viku meðgöngu og vegna alvarleika meinsins var sonur hennar og Ragnars Snæs Njálssonar tekinn með keisaraskurði á 29. viku, en fyrir áttu þau fjögurra ára gamla dóttur. Drengurinn er nú á vökudeild og Fanney í lyfja- og geislameðferð.
„Það var uppselt og það komust ekki fleiri fyrir í stöðinni,“ segir Linda Björk Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri Hress. 240 tóku þátt í leikunum auk þess sem tugi starfsfólks þurfti til að halda utan um þetta allt saman.
Átta 30 manna lið taka þátt í Hressleikunum sem samanstanda af átta mismunandi stöðvum.
Að leikunum loknum komu Fanney og fjölskylda í Hress og Ragnar Snær ávarpaði þátttakendur, sagði þeim frá sögu fjölskyldunnar og þakkaði stuðninginn. Að sögn Lindu Bjarkar var þetta hjartnæm stund og sást varla þurrt auga í salnum.
Þeir sem ekki gátu tekið þátt í Hressleikunum geta enn stutt við fjölskylduna með því að leggja inn á styrktarreikninginn 0135-05-71304, á kennitölu 540497-2149 eða hringt í Hress og skráð sig í happadrætti.